top of page

Korngrís frá Laxárdal

Fjölskyldubú frá árinu 1978

-  Um okkur  -

   Grís og flesk ehf er svínabú í Laxárdal í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

 

María Guðný Guðnadóttir og Hörður Harðarson byrjuðu með eina gyltu í gömlu hesthúsi árið 1978 og hefur stækkað ört síðan. Í dag eru gylturnar orðanar 160 sem er talið lítið bú í dag. Þetta er lítið fjölskyldubú. Bændurnir þar rækta sitt eigið bygg, hveiti og repju til að fóðra svínin. 

Fóðrunin. 

Það sem er nokkuð sérstakt við eldið á okkar svínum er að þau eru alin að mestu á íslensku fóðri.  

     Árið 2007 hófst kornræktin í  Gunnarsholt á Rangárvöllum, þar sem nægjanlegt land er til staðar, en sama ár var ræktað á um 30 hekturum. Næstu ár var aukið við ræktunina jafnt og þétt. Komið var upp búnaði til að þurrka, geyma og flytja kornið. Einnig var fjárfest í tækjum til jarðvinnslu og sáningar.

      Í dag er meginhluti ræktunarinnar bygg en einnig er ræktun á repju vaxandi ásamt því að tilraunir hafa verið gerðar með ræktun á hveiti, rúg og höfrum. Árið 2017 er stefnt að því að rækta bygg á um 190 hekturum og repju á um 40 hekturum. Þá eru gerðar tilraunir með hentugar aðferðir til að hvíla land sem er í stöðugri ræktun og hvaða ræktunar-aðferðir henta best.

     Í dag er íslenskt hráefni í um 75% af öllu fóðri sem framleitt er fyrir svínin í Laxárdal.

 

Landbúnaðarverðlaun 4.mars 2013

Í Laxárdal II búa hjónin María Guðný Guðnadóttir og Hörður Harðarson félagsbúi ásamt syni sínum Björgvini Þór og tengdadóttur, Petrínu Þórunni Jónsdóttur auk barna þeirra. Í Laxárdal er rekið stórt svínabú sem hefur þá sérstöðu að stór hluti fóðurs er heimafenginn. Um 75 prósent af öllu fóðri sem svínin í Laxárdal fá er ræktað í Gunnarsholt þar sem Laxárdalsbændur leigja um 300 hektara lands undir kornrækt, einkum bygg. Bændur í Laxárdal hljóta Landbúnaðarverðlaunin fyrir myndarskap og dugnað, framsýni og nýsköpun í íslenskum landbúnaði. 

 

Framsæknir svínaræktendur í Laxárdal

(frétt í bændablaðinu 26.febrúar 2009)

 

 

Kornsílóið og íslenska byggið

„Sílóið hefur virkað vel í alla staði. Fyrst og fremst er um gríðarlega vinnuhagræðingu að ræða fyrir okkur. Það tók okkur áður kannski hálfan dag að fylla á litlu sílóin okkar en nú tekur sama verk ekki nema um hálftíma. Þá hefur gæði kornsins haldist mun betur en áður og rakaskemmdir eru úr sögunni,“ segir Björgvin Þór Harðarson spurður um hvernig sílóið hafi reynst frá því það var reist í haust.

Hann segir að kornsílóið sé liður í ákveðinni heildarhugsun sem nú sé í gangi í Laxárdal. „Við höfum stefnt að því fóðra svínin á íslensku byggi. Með svo stórt síló þá gefur það okkur tækifæri á að taka á móti miklu magni, einmitt á þeim álagstímum þegar þurrkstöðvarnar lenda í vandræðum með geymslupláss hjá sér. Tíðarfar hjá okkur Íslendingum gerir það að verkum að hlutirnir gerast mjög hratt í kornuppskerunni og við vildum vera í stakk búnir að geta tekið á móti því íslenska korni sem í boði er og við sjáum fram á að við þurfum að nota.“

Hann segir að með því að nota eingöngu bygg sem sé íslenskt að uppruna – og laust við alla eiturefnanotkun – þá sé verið að taka skref í þá átt að sérkenna svínarækt þeirra betur. „Við höfum meiri áhuga á því að sérkenna afurðir okkar og auka verðmæti þeirra en að auka framleiðsluna. Við viljum fara svipaðar leiðir og garðyrkjubændur hafa verið að fara með upprunamerkingar þar sem íslenska fánanum er flaggað og hefur gefist vel.“

 

Samstarf við Landgræðsluna og aukning í kornrækt

Á síðasta ári ræktuðum við um einn þriðja af okkar byggþörf, á um 50 ha landi. Á þessu ári stefnum við að auka það upp í 100 ha. Við munum því komast nálægt því að rækta um helming þess byggs sem við þurfum á þessu ári, sem er um 400-500 tonn. Ég er ekki viss um að við komumst neitt lengra með frekari stækkun.“

Bændurnir í Laxárdal hafa notið góðs af samstarfi við Landgræðsluna í Gunnarsholti, þar sem takmarkað landrými er til kornræktar við Stóru-Laxá í Gnúpverjahreppi. „Samstarfið hófst fyrir um 9 árum, en þá stóð Landgræðslan sjálf í kornrækt. Við byrjuðum þá að kaupa af þeim korn og svo þróuðust mál þannig að ekki fékkst lengur mannskapur til að sinna byggökrunum þannig að upp kom staða að okkur bauðst að taka við þeim. Núna leigjum við land hjá Landgræðslunni og ég held að þetta sé gott samstarf; við nytjum landið og ræktum okkar eigið bygg en þeir fá leigutekjur og halda landinu í rækt. Á síðasta ári vorum við að taka upp tún sem voru búin höfðu ekki verið hreyfð í um 20 ár.

 

Stærstu notendurnir á íslensku byggi

Sem fyrr segir er stefnt að því í Laxárdal að allt bygg sem notað er í fóður verði íslenskt, allan ársins hring. Björgvin segir að í fyrsta skiptið í ár sé von til þess að þetta takist. En hversu hátt hlutfall er byggið í fóðurblöndunni. „Svínaræktendur eru með þetta aðeins breytilegt. Venjulegar blöndur innihalda m.a. soja, hveiti, maís og bygg – og sumir nota líka brauðmeti. Það er mismunandi hver hlutföllin eru á milli bænda. Við höfum ákveðna sérstöðu þar sem við notum íslenska byggið í 50-80% hluta fóðurblöndunnar. Hveitihluti fóðursins er um 10-30% og til að vega upp á móti orkuleysinu í bygginu þá höfum við notað íslenska fitu sem unnin er af Kjötmjöli. Þannig er megin hugmynd okkar er að framleiða eins íslenska vöru og við erum fær um að gera. Ég er alveg sannfærður um það að Íslendingar eru að bíða eftir því að fá svínakjöt sem hægt er að auðkenna alveg sérstaklega sem íslenska framleiðslu.“

Spurður að því hvort það hafi komið til greina að reyna auðkenna framleiðsluna í Laxárdal enn frekar með því að stefna að lífrænni ræktun segir Björgvin að eftir að hafa skoðað það lítillega sé ljóst að við núverandi aðstæður er það nánast óhugsandi. „Allt fóður yrði þá að vera vottað lífrænt ræktað og það er bara ekki raunhæft hér á Íslandi. Það er t.a.m. ekki hægt að rækta soja hér sem er mikilvægt í fóðurblöndur svínaræktenda og markaðslega væri það hreinlega of dýrt að kaupa það sérstaklega lífrænt ræktað utan frá. Frekar myndi ég sjá fyrir mér einhvers konar svínabúskap þar sem svínin ganga að mestu um sjálfala.“

 

Pizzavagn og sala beint frá býli

Björgvin og kona hans, Petrína hófu að starfrækja Pizzavagninn. Björgvin segir að kona hans hafi fengið  hugmyndina upp úr árinu 2003 þegar frekar hart var í ári. Hann segir að hann hafi fljótlega ráðist í að smíða vagninn og síðan hafi þau hafist handa við að færa fólki í uppsveitum Árnessýslu flatbökur. Hluti af álegginu kemur beint frá býli; í þeim skilningi að við kaupum papriku, sveppi og tómata sem fer á pizzurnar frá garðyrkjubændum á Flúðum en beikonið og hakkið kemur frá okkur, reyndar er hakkið blandað við nautahakk og það kemur frá Þrándarholti og Fossi. Einnig notum við eingöngu íslenskan ost“

En það eru ekki bara Pizzur sem boðið er upp á í Pizzavagninum. Miðvikudaginn 18. febrúar sl. var farið af stað með nýjung í sölu þegar boðið var upp á svína-steikarpakka, beint frá Laxárdal, til sölu í vagninun. „Við höfum verið að selja heila og hálfa skrokka beint frá býli í Laxárdalnum. Við látum slátra hjá Sláturfélagi Suðurlands á Selfossi, skrokkarnir fara svo í  vinnslu hjá Krás á Selfossi, eða við seljum þá óunna. Við höfum haft ákveðinn fastann viðskiptavinahóp sem hefur leitað til okkar með kaup á kjöti og höfum við þá ýmist sent kjötið hvert á land sem er eða það hefur verið sótt. Þar sem þetta eru kannski ekki hagkvæmar eða aðlaðandi stærðareiningar fórum við að spá í að koma kjötinu í neytendavænni umbúðir og hvernig við gætum gert það aðgengilegra. Pizzavagninn var kjörinn til þess að koma þessu til viðskiptavinanna og nú er bara að sjá hvernig þessu verður tekið.“ Kjötsalan hafði ekkert verið auglýst þegar Pizzavagninn kom á Selfoss, en þrátt fyrir það tókst að selja fjóra pakka sem eru um 10 kg hver – og telur Björgvin það vera prýðilegur árangur og gefi von um að steikarsalan geti fallið í kramið. 

 

Blaðamaður getur vitnað um vinsældir Pizzavagnsins, gæðin á flatbökunum og ferskleika hráefnisins þegar hann kom við á Laugarvatni eitt kalt febrúarkvöldið. Síminn stoppaði ekki á meðan blaðamaður staldraði við, enda margir soltnir menntskælingar á heimavist Íþróttaskólans á Laugarvatni.

Pizzavagninn er með eigin vef (www.pizzavagninn.is) þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um vöruúrval og dagskrá Pizzavagnsins, en hann staldrar við á ferðum sínum um uppsveitir Árnessýslu á einum sjö áfangastöðum.

 

Nýting á metangasi í Laxárdal

Björgvin er framsýnn bóndi og hefur háleitar hugmyndir um hvernig nýta megi hinn orkumikla úrgang sem hleðst upp í Laxárdalnum dag hvern. „Já, mig dauðlangar til að fara út í svona metangasvinnslu. Við erum náttúrulega með þennan haug hérna; bæði frá fjósinu og frá svínunum og það er ansi freistandi að reyna nýta sér þetta. Við byrjuðum að pæla í þessu ég og félagi minn, sem er efnaverkfræðingur, fyrir nýsköpunarverkefni IMPRU á Norðausturlandi á síðasta ári. Þar þróuðum við útlínur að verkefni við vinnslu á metangasi en stoppuðum eiginlega á nýtingarmöguleikunum. Á Íslandi er markaður með metan það óþróaður að jafnvel þó að það tækist að vinna metan í nokkrum mæli þá væri erfitt að selja það.  Bæði er lítið framboð af vélum og bifreiðum á Íslandi, sem nota metan, til kaupa fyrir neytendur og eins eru dælustöðvar fáar. Ég sé ekki annað en að Ísland þurfi eins og aðrar þjóðir að fara í endurskoðun á sínum eldsneytismálum. Nágrannaþjóðir okkar eins og

Svíþjóð og Þýskaland t.d. eru komnar langt framúr okkur og við megum ekki dragast meira aftur úr. Það er líka hægt að nýta metanið til framleiðslu á rafmagni en það er ekki talið hagkvæmt hér vegna þess hversu rafmangið hér er ódýrt. Áhuginn hjá mér hefur á nýtingu á metani hefur hins vegar verið endurvakinn og nú snýr hann meira að hagnýtingunni á bænum sjálfum eftir að við settum upp kornsílóið. Einfaldasta og hagkvæmasta nýtingin á metangasi hjá okkur væri líklega sú að þurrka korn. Ég sé t.d. alveg fyrir mér í nánustu framtíð að við getum farið að brenna gasið og nýtt það þannig til knýja þurrkstöð fyrir kornið. Svínaskíturinn er talinn vera jafnvel hentugri í slíka vinnslu en kúamykjan og áburðurinn verður jafnvel betri þegar metanið er farið úr honum. Framtíðarsýnin væri svo jafnvel að gera býlið sjálfbært um orkunotkun, þannig að vélar og bílar þess gengju algjörlega fyrir því metani sem yrði þar til.“

bottom of page